Categories
Þakklæti

Þakklætisbréf

Þakklætisbréf

Það að skrifa þakklætisbréf er ein áhrifaríkasta leiðin til að sýna þakklæti í orði og verki. Rannsóknir sýna að athöfnin ein og sér eykur hamingju þess sem skrifar án þess að viðkomandi sendi bréfið áfram. Þegar þú iðkar þakklæti t.d. með því að skrifa þakklætisbréf ertu að auka jákvæðar tilfinningar á borð við von, bjartsýni og gleði. Það að mótttaka slíkt bréf er ómetanlegt og fyllir hjartað af kærleika og þakklæti. Það að þakka ekki fyrir er eins og að pakka inn gjöf án þess að gefa hana. Það er misjafnt eftir fólki hversu auðvelt það á með að sýna þakklæti sitt til annarra. Ef þig langar til þess að þakka einhverri manneskju í lífi þínu fyrir það sem hún hefur gert fyrir þig þá er þakklætisbréf frábær og auðveld leið. Fyrir aðra er erfitt að tjá þakklæti sitt munnlega og því geta þakklætisskrif verið góð lausn til að sýna þakklæti sitt til sérstakrar manneskju sem þig langar að þakka fyrir með öllu hjarta. 

Leiðarvísir í þakklætisskrifum

Martin Seligman sem oft er talinn faðir jákvæðrar sálfræði hefur notað þakklætisbréf mikið í sinni vinnu og rannsakað áhrif þess ásamt því að leggja slíkt verkefni fyrir nemendur sína. Hann leggur til leiðarvísir í þakklætisskrifum sem eru eftirfarandi:

 1. Gefðu þér tíma til þess að hugsa um einstakling sem hefur haft jákvæð áhrif á líf þitt til langs eða skamms tíma. Einhvern sem þú hefur ekki þakkað nægilega mikið fyrir.
 2. Skrifaðu bréf til viðkomandi þar sem þú lýsir því nákvæmlega hvernig þér líður gagnvart manneskjunni og hvað hún hefur gert fyrir þig. Rifjaðu upp atvik og búðu til frásögn í stað þess að skrifa þú hefur alltaf staðið með mér. Skrifaðu hvernig manneskjan stóð með þér, hvernig þér leið og hvernig það hjálpaði þér. Þessar spurningar gætu hjálpað þér í bréfaskriftunum:

  -Hvernig og hvenær þið hittust?
  -Hverjar eru þínar fyrstu minningar um ykkar kynni?
  -Hvernig var líf mitt á þeim tíma?
  -Hvað hefur þessi manneskja gert fyrir þig?
  -Hvernig leið þér þá og nú?
  -Hvaða þýðingu hefur þessi manneskja haft á líf þitt?

 3. Þetta þrep er ekki endilega alltaf við hæfi en þegar þú afhendir bréfið þá getur þú fylgst með viðbrögðum manneskjunnar þegar hún móttekur það og jafnvel þegar hún les það. Ef það passar þá getið þið rætt innihald bréfsins.

Það þarf þó að hafa í huga að við stýrum ekki viðbrögðum annarra og útkoman gæti orðið önnur en við vonuðumst eftir. Það er því gott að setja sér engar væntingar um útkomuna þ.e. viðbrögð manneskjunnar sem móttekur bréfið. Þú allavega gerðir þitt besta að sýna þakklæti þitt til manneskjunnar og náðir að tjá þakklæti þitt.

Eitt af aukaverkefnunum í þakklætisdagbókinni er einmitt að skrifa þakklætisbréf. Það er góð æfing en ef þú vilt afhenda slíkt bréf þá getur þú hlaðið niður skjalinu hér fyrir neðan og prentað það út og skrifað á það. Jafnvel sett fallegan borða og afhent það manneskjunni sem þú vilt þakka fyrir. Hvort sem þú gerir það í eigin persónu eða í gegnum póstinn.

Gangi þér vel

þakklætiskveðja

Erla Súsanna

Tekið úr Flourish: A new understanding of happiness and well-being and how to achieve them eftir Martin Seligman. 

Categories
Þakklæti

Þakklætisskrif

Þakklætisskrif

Viltu auka hamingju þína um 25%? Svarið við þeirri spurning er eflaust, já! Hver vill það ekki? Áður en við skoðum eitt af því sem opnar dyrnar að hamingjunni ætlum við aðeins að skoða hugtakið hamingja. Leitin að hamingjunni er líklega jafn gömul mannkyninu. Hamingja er metin mikilvægasti þátturinn hvað varðar lífsgæði. En er hamingjan ekki bara eitthvað sem við finnum á eigin skinni og þarfnast ekki útskýringar? Nei, svo er aldeilis ekki því það er bæði hægt að skilgreina og mæla hamingjuna og það er eitt af því sem er rannsakað með vísindalegum hætti undir formerkjum jákvæðrar sálfræði. Viðfangsefni jákvæðrar sálfræði er m.a. hvað gerir lífið þess virði að lifa því og hvað stuðlar að því að einstaklingar, hópar og stofnanir séu vel starfhæf og blómstri. Hamingjan er ekki bara fyrir útvalda. Hamingjan hefur m.a. verið skilgreind þannig að hún sé upplifun okkar á því hvernig við metum líf okkar þegar á heildina er litið. 

Hamingja er meðvitað hugarástand og við höfum heilmikið um það að segja hvort við erum hamingjusöm eða ekki.  Hugarfarið skiptir sköpum og það að temja sér jákvætt hugarfar er algjört lykilatriði. Hamingjuna er ekki að finna þegar þú loksins nærð einhverjum áföngum í lífinu, heldur er galdurinn að finna hamingjuna á hverjum degi í ófullkomleikanum. Þú getur valið að standa hnarreist í miðjum stormi með jákvæðnina að vopni eða lúta í lægra haldi og láta storminn ná tökum á þér. Á einfaldara máli þýðir þetta að ef við ætlum að bíða eftir því að hamingjan komi til okkar, gætum við þurft að bíða ansi lengi. En hvernig förum við að því að standa storminn af okkur? Svarið felst m.a. í þakklætinu. 

 

Þakklæti er ein sterkasta og jákvæðasta tilfinning sem til er. Þakklæti hefur verið ofarlega á baugi hjá siðfræðingum en sálfræðingar hafa ekki veitt því mikinn gaum fyrr en nýlega og það hefur verið rannsakað töluvert síðastliðin ár. Robert A. Emmons prófessor í sálfræði við University of California er þar fremstur í flokki. Rannsóknir hans hafa m.a. tengt þakklæti við aukna hamingju og ein rannsókn sem birtist í The journal of social and clinical psychology hefur sýnt fram á að þakklæti getur haft mestu tengsl við andlega heilsu og hamingju af öllum þeim persónulegu einkennum sem þekkt eru. Emmons gerði m.a. rannsókn á því hvaða áhrif það hefði á vellíðan okkar að skrifa í  þakklætisdagbók. Eftir aðeins þriggja vikna skrif í þakklætisdagbók þar sem þátttakendur skrifuðu niður þrjá hluti sem þeir voru þakklátir fyrir á hverjum degi jókst hamingja þeirra um heil 25%.

Reglulega skrif í þakklætisdagbók geta haft í för með sér betri svefn, aukna vellíðan, sterkara ónæmiskerfi, meiri orku og minni streitu svo fátt eitt sé nefnt. Þeir sem iðka þakklæti hugsa ekki um það sem vantar í líf þeirra heldur þakka fyrir það sem þeir hafa eða eins og skáldið Hamlet orðaði það “There is nothing either good or bad but thinking makes it so”. Mergur málsins er að við erum okkar eigin lyklasmiðir og það er í okkar höndum að nota réttu lyklana til að opna dyrnar að hamingjunni því hana er svo sannarlega að finna ef við veljum að líta á björtu hliðar lífsins og vera þakklát fyrir það sem við höfum.

Takk

Þessi síða notar vafrakökur

Við notum vafrakökur til að safna og greina upplýsingar um notkun og virkni vefsíðunnar, til að geta notað lausnir frá samfélagsmiðlum og til að bæta efni og birta viðeigandi markaðsefni.